Sprenging í netverslun síðdegis

„Það er alveg margföldun á eftirspurn í dag og á morgun. Þetta gerðist bara núna eftir hádegi. Dagurinn í dag er orðinn uppseldur og það er komið mikið af pöntunum inn á næstu tvo daga,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa um netverslun hjá Nettó eftir að tilkynnt var um hertar sóttvarnaraðgerðir fyrr í dag.

Hann segir netverslun hjá Nettó hafa verið um það bil tvöföld á við það sem við hafði verið búist. „Við vorum ekkert að undirbúa að það kæmi einhver holskefla, en svo bara núna eftir hádegi þegar þetta var komið í fréttirnar stórjukust hjá okkur pantanirnar og dagurinn í dag seldist upp.“

Ekki í takt við þróun nýverið
„Við erum að undirbúa okkur undir að fjölga afhendingartímabilum fram að jólum. Það er verið að reyna að finna til auka mannskap til að tína og keyra heim. Við keyrum út til 2 á aðfangadag, en eins og þetta lítur út núna ef þetta heldur svona áfram þá verður aðfangadagur örugglega orðinn uppseldur seinnipartinn á morgun.“

Gunnar segir þetta ekki í takt við þróunina síðustu mánuði. Tengslin milli sóttvarnaraðgerða og netverslunar hafi verið búin að veikjast verulega frá því sem áður var í faraldrinum. „Við fundum ekki svona mikla umframeftirspurn þegar það var byrjað að herða aðgerðir núna í október, sem dæmi. Þessar takmarkanir virðast heldur betur vera að ýta við fólki.“

Gunnar segir marga nýta þjónustuna þegar þeir byrja í sóttkví, en auk þess séu líklega margir sem vilji komast hjá smiti og sóttkví yfir hátíðirnar.

Sjá nánar á vb.is