Starfshópur um úrgangslosun

Bergrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis og samfélags hjá Samkaupum, hefur verið valin til að taka þátt í starfi Akkeris, sem er nýr ráðgefandi hópur á vegum Umhverfisstofnunar. Hópurinn hefur það hlutverk að styðja við verkefnahóp Umhverfisstofnunar sem endurskoðar stefnuna Saman gegn sóun, sem miðar að því að draga úr úrgangslosun í samfélaginu.

Saman gegn sóun hefur starfað frá árinu 2016 og felast helstu hlutverk Akkeris m.a. í því  að veita innsýn í stöðuna í málaflokknum frá bæjardyrum atvinnulífsins, virkja hagsmunaaðila, tryggja eignarhald og samstöðu í verkefninu, hjálpa til við sýnileika og koma að þróun, framsetningu og mögulegri framfylgd aðgerðaáætlunarinnar.

Önnur í hópnum koma meðal annars frá Háskóla Íslands, MS, Elkem og Brim. Verkefnið Saman gegn sóun var sett á laggirnar árið 2016 og miðar að því að draga úr myndun úrgangs í samfélaginu.

„Það er mikill heiður að vera hluti af þessum öfluga hóp. Við hjá Samkaupum erum stöðugt að leita leiða til þess að bæta umhverfisáhrif okkar og ég finn fyrir miklum meðbyr hjá samstarfsfólki mínu að gera enn betur. Þar skiptir úrgangslosun gífurlega miklu máli og ég hlakka til að eiga uppbyggilegt samtal um hvernig hægt er að uppfæra stefnuna Saman gegn sóun,” segir Bergrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis og samfélags.

Leitast verður við að fá heildstæða og raunhæfa mynd af úrgangslosun í íslensku samfélagi.

Samkaup hafa unnið að ýmsum umhverfismálum nýverið, til að mynda var fyrir skemmstu sett  upp jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun Krambúðarinnar en vélin breytir lífrænum úrgangi í jarðvegsúrgang á einum sólarhring. Gagngert hefur verið unnið gegn matarsóun og voru til að mynda gefnar vörur í Grundarfirði eftir að kælar í Kjörbúðinni gáfu sig.