Starfskjarastefna

Starfskjarastefna Samkaupa hf skv. 79. grein laga nr. 2/1995 um hlutafélög

Markmið

Stefna félagsins er að laða til sín hæfasta starfsfólkið sem völ er á og hlúa vel að kjörum þess svo fyrirtækið sé samkeppnishæft. Stefnan er liður í að tryggja langtímahagsmuni eigenda og starfsfólks með skipulögðum, einföldum og gegnsæjum hætti.

Starfskjör stjórnarmanna

Þóknun til stjórnarmanna og varamanna fyrir komandi starfsár skal ákveðin á aðalfundi ár hvert og skal þóknun taka mið af þeim tíma sem varið er til starfsins og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Stjórnarmenn skulu fá greiddan ferðakostnað þegar þeir sækja fundi lengra en 50 km leið og dagpeninga þegar stjórnarfundir eru út á landi og taka meira en hálfan dag. Útlagður kostnaður stjórnarmanna vegna starfa þeirra skal greiddur af fyrirtækinu. Félagið skal tryggja að á hverjum tíma sé í gildi starfsábyrgðartrygging er gildi fyrir stjórnarmenn og æðstu stjórnendur vegna starfa þeirra fyrir félagið.

Starfskjör æðstu stjórnenda

Stjórn gerir skriflegan samning við forstjóra félagsins. Forstjóri félagsins gerir skriflega samninga við framkvæmdastjóra. Við ákvörðun starfskjara skal taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni og samræmingu innan félagsins. Starfskjör æðstu stjórnenda skulu ítarlega tilgreind í ráðningasamningunum. Félagið getur greitt kaupauka sem byggja á árangri einstakra stjórnenda eða starfsmanna í starfi. Greiðsla kaupauka tengist ýmist árangri félagsins í heild, beinum árangri starfsmanns eða afkomu sviðs sem starfsmaður starfar innan, þ.á.m. hvort settum markmiðum hafi verið náð. Forstjóri félagsins leggur slíka kaupauka fyrir stjórn félagsins til samþykktar.

Starfslok

Þjóni það hagsmunum félagsins er forstjóra félagsins heimilt að gera samninga um starfslok við stjórnendur. Slíka samninga skal ávallt bera undir stjórn til kynningar/samþykktar.

Upplýsingagjöf

Gera skal árlega grein fyrir launum og öðrum starfskjörum stjórnar og æðstu stjórnenda í árskýrslu félagsins. Starfskjarastefnu skal birta á heimasíðu félagsins.

Samþykki starfskjarastefnu

Starfskjarastefna félagsins skal tekin til afgreiðslu á aðalfundi til samþykktar eða synjunar og skal jafnframt árlega tekin til endurskoðunar og borin undir aðalfund. Ef breytingar eru gerðar á stefnunni skal hún borin undir aðalfund til samþykktar eða synjunar. Stefnan er leiðbeinandi fyrir stjórn.

Þannig samþykkt á aðalfundi í mars 2023