Gunnur Líf

Velferðarþjónusta hefur minnkað starfsmannaveltu

Verslanakeðjan Samkaup sem rekur Nettó, Krambúðina, Kjörbúðina og Iceland, hefur hleypt af stokkunum velferðarþjónustu fyrir starfsfólk sitt. Í því felst að fyrirtækið borgar allt að sex tíma hjá sérfræðingi fyrir starfsfólk sitt, hvort sem það er í fjármálaráðgjöf, hjónabandsráðgjöf, sálfræðitíma eða lífsstílsráðgjöf. Hugmyndin að verkefninu kviknaði í kjölfar Covid-19 faraldursins og gafst tilraunaverkefnið vel og var því ákveðið að halda því áfram.

„Þetta verkefni hefur minnkað starfsmannaveltuna hjá okkur og það er gríðarleg ánægja með þessa velferðarþjónustu heilt yfir,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa, og bætir við að verkefnið sé komið til að vera.

„Við lítum á það sem framtíðarverkefni og þetta hefur gífurleg jákvæð áhrif.“

Aðspurð hvort kostnaðurinn af þessu verkefni sé mikill segir Gunnur að svo sé ekki í stóra samhenginu.

„Það er ekki eins mikill kostnaður og maður myndi halda miðað við ávinninginn. Þetta er mikil kjarabót fyrir þá sem nýta sér þetta þar sem þetta eru sex tímar hjá fagaðila. En í stóra samhenginu er þetta ekki stór kostnaðarliður fyrir fyrirtækið.

Það sem skiptir mestu máli er að starfsmennirnir okkar geta nýtt sér þessa þjónustu og að starfsánægjan aukist. Þetta er líka einfalt í framkvæmd og starfsfólkið okkar hefur verið að nýta sér þetta í mjög miklum mæli.“

Skoða nánar á vef Fréttablaðsins