Um 22% af velt­u Sam­kaup­a fer í gegn­um app­ið

Yfir 40 þúsund vildarvinir sóttu app Samkaupa á sex mánuðum í fyrra og þar af sjö þúsund í desember. Appið er því meðal stærstu vildarkerfa á Íslandi, en notendur fá afslátt af öllum vörum í þeim 65 verslunum Samkaupa sem staðsettar eru víðsvegar um landið. Nú nálgast velta kerfisins fjóra milljarða króna en sé horft til síðastliðins desember, sem setti tóninn fyrir nýtt ár, fór 22 prósent allrar veltu Samkaupa í gegnum appið, en hlutfallsleg notkun appsins er í janúar á pari við desember. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við erum ótrúlega stolt af þeim viðtökum sem við höfum fengið á svo stuttum tíma. Þetta er gríðarlega góður árangur og greinilegt að viðskiptavinir eru móttækilegir fyrir þessari viðbót í þjónustu hjá okkur. Að notkun appsins í janúar sé á pari við desember gefur okkur sterkar vísbendingar um að hér séum við komin með ansi gott vildarkerfi í hendurnar. Við sjáum það líka á þeirri staðreynd að meðalkarfan hjá notendum á aldrinum 28-42 ára er til dæmis 54 prósent stærri meðal þeirra sem nota appið svo það má segja að hvatinn hér er augljós. Við fögnum því sömuleiðis að þó svo að hlutfallslega séu flestir notendur á höfuðborgarsvæðinu, þá er landsbyggðin enginn eftirbátur þegar kemur að innleiðingu og notkun appsins og sjáum við gríðarlega góða svörun til dæmis á Akureyri og Skagaströnd svo einhverjir staðir séu nefndir. Þá er áhugavert að rýna í gögnin og sjá að landsbyggðin er öflugri í að nýta sér tilboðin sem boðið er upp á. Við sjáum jafnvel sums staðar dæmi þess að rúmlega 60 prósent viðskipta fari fram í gegnum appið,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Sem fyrr segir nemur upphæðin sem notendur versluðu fyrir yfir árið 2021 um fjórum milljörðum króna. „Við höfum sett mikið púður í að hvetja viðskiptavini til að nýta inneignina nú strax í janúar og þá þegar hafa um 320 milljónir verið nýttar í formi inneignar. Eðli kerfisins og inneignanna er þannig að þegar verslað er umbreytist afslátturinn í inneign og það sama á við þegar verslað er með inneignina, þannig stuðlum við að sífelldu flæði fyrir viðskiptavininn hjá okkur. Við munum halda áfram að þróa appið og reynum enn frekar að mæta kröfum nútíma viðskiptavinarins með ýmiskonar leikjapælingum, innkaupalistum og fríum vörum svo eitthvað sé nefnt,” segir Gunnar.

Sjá nánar.