Samkaup styður þáttöku í kvennaverkfallinu

Samkaup styður konur og kvár til þess að taka þátt í kvennaverkfallinu

Samkaup styður konur og kvár sem hjá þeim starfa til að taka þátt í kvennaverkfallinu sem fram fer 24. október næstkomandi. Þær konur og kvár sem taka þátt í verkfallinu verða ekki fyrir tekjutapi.

Samkaup reka 65 verslanir um allt land undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland.

Þar starfa 712 konur og kvár; um helmingur alls starfsfólks fyrirtækisins. Það er því ljóst að kvennaverkfallið mun hafa áhrif á þjónustu til viðskiptavina þennan dag en tilkynnt verður þegar nær dregur hver áhrifin verða.

„Kvennaverkfallið mun vissulega hafa áhrif á okkar starfsemi en við erum tilbúin að mæta því. Þetta snýst um að vekja athygli á störfum kvenna og kvára og við styðjum heilshugar baráttu þeirra fyrir jöfnum kjörum og tækifærum sem og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Þess vegna höfum við frætt starfsfólkið okkar um kvennaverkfallið og hvatt þau sem geta og vilja til að taka þátt í því.

Með þessu tökum við skýra afstöðu í baráttunni og hvetjum aðra atvinnurekendur til að gera það sama,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Samkaup hafa lagt áherslu á jafnlaunastefnu í sinni starfsemi og er launamunur kynjanna þar í dag 0,2%.