Ný og stærri verslun Nettó Glerártorgi

Ný verslun Nettó, mun stærri en sú gamla, verður opnuð á Glerártorgi í dag, fimmtudag, klukkan 9.00. Nýja verslunin er við suðvestur inngang verslunarmiðstöðvarinnar, í rýminu þar sem Rúmfatalagerinn var áður.

„Staðsetningin er mjög spennandi innan Glerártorgsins og ljóst að þjónusta og aðgengi að versluninni mun stórbatna. Þetta er fjórða græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir svo eitthvað sé nefnt,“ segir Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó í tilkynningu.

Hópur gesta skoðaði verslunina í gær ásamt fjölda starfsmanna Nettó, sem unnið hafa hörðum höndum að því að gera allt klárt undanfarið.

Verslunin verður opin daglega frá kl. 9.00–20.00.

„Í dag milli kl. 15 og 19, verða fjölbreyttar kynningar, lukkuhjól og glaðningur fyrir börnin. Vegleg opnunartilboð verða síðan í gangi alla helgina þar sem hægt verður að gera frábær kaup,“ segir í tilkynningu frá Nettó.

Rúmgóð og björt

„Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja. Við leggjum mikla áherslu á ferskvöruna og það fyrsta sem mætir þér er brakandi ferskt ávaxta- og grænmetistorg. Nettó er leiðandi í heilsusamlegum- og lífrænum vörum og fá þær vörur mikið rými. Á hverjum degi verður boðið upp á nýbakað brauð, ferskvörusvæðið okkar verður stórt og vöruúrvalið í heild sinni mjög gott,“ segir Heiðar Róbert.

„Samkaup í símann“

Verslanir Nettó eru staðsettar á 20 stöðum á landinu en einnig er boðið upp á netverslun og heimkeyrslu á Akureyri, höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og í Reykjanesbæ.

„Nettó er í eigu Samkaupa hf. og var fyrsta lágvöruverslunin til að opna netverslun á Íslandi en alls eru verslanir Samkaupa orðnar rúmlega 60 talsins. Þá hefur verið innleitt vildarkerfi sem gildir í öllum Nettó verslunum sem ber heitið Samkaup í símann og veitir viðskiptavinum fastan afslátt af innkaupum og aðgang að sértilboðum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Samkaup reka verslanir sínar um allt land auk netverslunar sem þjónustar viðskiptavini sömuleiðis víðsvegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslunarmerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.“

Lesa frétt á akureyri.net