Nettó hyggst opna nýja verslun við Selhellu

Nettó hyggst opna nýja verslun við Selhellu í Hafnarfirði í haust. Nettó tekur við verslunarrýminu í byrjun september en með viðbótinni verða Nettó verslanir orðnar 20 talsins auk miðlægrar netverslunar.

„Við höfum horft til Vallarhverfisins í töluverðan tíma, þar er mikil uppbygging og við hlökkum verulega til að opna í haust. Staðsetningin er mjög spennandi og ljóst að þjónusta og fjölbreytni við íbúa hverfisins mun stórbatna,“ er haft eftir Halli Geir Heiðarssyni, rekstrarstjóra Nettó í fréttatilkynningu.

„Þetta er fjórða græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir svo eitthvað sé nefnt. Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja,“ segir Hallur.

Nettó er í eigu Samkaupa og eru verslanir samstæðunnar orðnar rúmlega 60 talsins. Helstu verslunarmerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

Sjá nánar á vef Viðskiptablaðsins.