Innkaupakarfan er ódýrust hjá okkur þegar fólk notar appið!

Við tölum oft um að markmið okkar sé að bjóða samkeppnishæft verð á vörum sem venjulegt fólk þarf oft á að halda. Þegar verðbólga er há og byrgjarnir okkar hækka verðin sín oft á ári getur það kallað á mikla vinnu og útsjónarsemi að ná þessu markmiði. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá staðfestingu á því að þessi vinna okkar er að skila árangri.

Einhver ykkar hafa kannski tekið eftir nýjustu fréttum af verðlagskönnun ASÍ, en það er könnun sem Alþýðusambandið gerir reglulega til að upplýsa neytendur um verðþróun og stöðu matvælaverðs. Könnunin fer þannig fram að búin er til innkaupakarfa – listi yfir vörur sem venjuleg fjölskylda myndi líklega kaupa – og svo fer fólk á vegum ASÍ í verslanir og athugar hvað þessi karfa myndi kosta.

Í einföldu máli eru niðurstöðurnar þær að verðið á viðmiðunarkörfunni í verslunum Nettó og Kjörbúðarinnar er mjög nálægt verðinu í Bónus og Krónunni. Aðeins skilja nokkrar krónur á milli og það er afrek í sjálfu sér.

En staðan er önnur og enn ánægjulegri þegar við skoðum hvað gerist þegar fólk notar Samkaupaappið, því það veitir 2% afslátt af öllum innkaupum í búðunum okkar. Þegar þessi afsláttur er tekinn í reikninginn eru Nettó og Kjörbúðin ódýrastar allra verslana í verðkönnuninni.

Eins og áður segir er þetta ekki árangur sem kemur af sjálfum sér, heldur er hann afrakstur af mikilli og góðri vinnu allra sem vinna hjá Samkaupum. Við erum að gera góða hluti og erum að færa venjulegu fólki það sem það þarf á að halda núna – góða þjónustu og góðar vörur á góðu verði.

Vel gert öll!