Breytingar á fram­kvæmda­stjórn Sam­kaupa

Gunnar Egill Sigurðsson, nýskipaður forstjóri Samkaupa, kynnti í dag breytingar á framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Inn kemur nýr framkvæmdastjóri auk þess sem breytingar eru á verkaskiptingu innan framkvæmdastjórnarinnar. Tilgangur breytinganna er sagður vera að skerpa á helstu áherslum félagsins fyrir komandi ár. Samkaup rekur 66 verslanir um land allt, m.a. undir merkjum Nettó, Iceland og Krambúðinni.

Hallur Geir Heiðarsson mun taka við sem framkvæmdastjóri innkaupa- og vörustýringasviðs og kemur nýr inn í framkvæmdastjórn Samkaupa. Undir sviðið heyra vöruhús og innkaupasamningar. Hallur hefur unnið hjá Samkaupum í 25 ár og sinnt þar margvíslegum störfum en frá árinu 2013 hefur hann gegnt starfi rekstrarstjóra Nettó. Hallur er í viðskiptafræðinámi við Háskólann á Bifröst.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs auk þess sem hún verður staðgengill forstjóra. Undir sviðið heyra mannauðsmál, ytri og innri samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Gunnur er með B.ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum og MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Gunnur hefur starfað sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa frá árinu 2018.

Heiður Björk Friðbjörnsdóttir verður framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs. Undir sviðið heyra öll fjármál og eftirlit með rekstri félagsins ásamt upplýsingatæknimálum. Heiður er með B.A. gráðu í viðskiptafræði og MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Heiður hefur starfað sem fjármálastjóri Samkaupa frá árinu 2020.

Stefán Ragnar Guðjónsson tekur við sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs. Undið sviðið heyrir kjarnastarfsemi félagsins sem eru verslanir Samkaupa undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland. Stefán Ragnar hefur unnið hjá Samkaupum í 25 ár. Hann hóf stjórnendaferil sinn sem verslunarstjóri hjá félaginu árið 1997 en starfaði síðast sem framkvæmdastjóri innkaupasviðs. Hann er með B.A. gráðu í viðskiptafræði og MBA gráðu í Retail Management frá Stirling háskólanum í Skotlandi.

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa:
„Ég tel mikilvægt að nota tækifærið við þessar breytingar og skerpa á skipulagi félagsins. Ný framkvæmdastjórn Samkaupa er skipuð afar öflugu teymi stjórnenda sem búa yfir víðtækri reynslu hvert á sínu sviði. Framundan eru spennandi tímar á matvörumarkaðnum. Við höfum verið að fjölga þeim stöðum þar sem við mætum viðskiptavinum okkar. Netverslun Nettó sem fór í loftið árið 2017 hefur vaxið hratt, tugþúsundir njóta nú sérkjara þegar þau versla í gegnum Samkaupa-appið og þá er sjálfvirknivæðingin í búðunum okkar komin á góðan skrið. Við fengum vissulega heimsfaraldur með tilheyrandi samkomutakmörkunum en við teljum að neytendahegðunin hafi breyst til langframa. Nýsköpun er eina leiðin til að lifa af og ég get lofað því að neytendur eiga von á mörgum nýjungum frá Samkaupum á næstu árum.“

Lesa nánar á vb.is